BARÁTTAN UM BELTIÐ!

Hefur þú það sem þarf til að fá pílubeltið utan um þig og verða Live Darts Iceland meistarinn?

Baráttan um beltið er ný nálgun á íslenskt pílukast en einungis eitt belti er í boði og aðeins einn getur átt beltið í hvert sinn. Handhafi beltisins hverju sinni verður að verja það með kjafti og klóm á meðan hungraðir pílukastarar leggja allt að veði til þess að komast efst í röðina og fá að skora handhafa beltisins á hólm uppi á sviði á Bullseye á föstudagskvöldi með salinn fullan af æstum gestum og tónlistina á hæsta styrk!

Allir geta skráð sig til leiks og er mótið í gangi allt árið um kring. Styrkleikalisti verður myndaður utan um alla leikmenn og geta keppendur skorað á hvern annan um þeirra sæti á listanum. Keppendur geta skorað á aðra á listanum sem eru að hámarki 5 sætum fyrir ofan og verða að taka áskorun frá keppendum sem eru að lágmarki 5 sætum fyrir neðan. Keppandi í 10. sæti listans getur því skorað á alla í sætum 5-9. en verður einnig að samþykkja áskorun frá sætum 11-15 berist hún á undan.

Spilafyrirkomulag er 501, best af 19 leggjum og er spilað einu sinni í viku að hámarki. Hægt er að spila online eða í eigin persónu.